Grein: Mikilvægi samfellu í framkvæmdum



Veggangagerð – mikilvægi samfellu í framkvæmdum og leið til fjármögnunar

Eftir Gísla Eiríksson, Matthías Loftsson og Björn A. Harðarson


Nýlokið er gerð Dýrafjarðarganga, sem allir geta verið sammála um að eru mikil samgöngubót fyrir Vestfirðinga. Göngin stytta Vestfjarðaveg um rúma 27 km, auk þess að snjóþungur vegur um Hrafnseyrarheiði, sem var lokaður fjóra til sex mánuði á hverju ári, leggst af.

 

Gerð Dýrafjarðarganga gekk mjög vel og varð heildarkostnaður undir áætluðum kostnaði þegar allt er talið. Margt lagðist til en fyrst og fremst var það vegna yfirfærslu á reynslu og þekkingu allra þeirra sem að komu af fyrri sambærilegum verkum. Jarðfræðirannsóknir sýndu að berg væri tiltölulega gott til gangagerðar ef frá var talið setbergslag Dýrafjarðarmegin. Það reyndist rétt vera og jafnvel betra en menn þorðu að vona. Hönnun ganganna er mjög svipuð Norðfjarðarganga og hönnunarhópurinn, sem býr yfir mikilli reynslu, nýtti sér upplýsingar frá fyrri göngum í sinni vinnu. Hönnunar- og útboðsgögn reyndust enda vel og aðalverktakinn, sem kom nánast beint úr Norðfjarðargöngum og hafði reynslu frá fleiri íslenskum göngum, vissi við hverju mætti búast. Í eftirliti og verkumsjón Vegagerðarinnar voru einnig margreyndir menn. Það má því segja að þar væru reyndir menn í hverju rúmi.

Með tilkomu Dýrafjarðarganga eru veggöng hér á landi 14 talsins, samtals um 65 km. Þar af hafa um 63 km verið grafnir frá því hafin var vinna við Múlagöng 1988 eða um 2 km á ári að jafnaði á síðustu 32 árum. Rökstuddar óskir eru um 50 til 60 km af veggöngum til viðbótar, þar sem ekki er hægt að auka samgönguöryggi að ráði nema með veggöngum. Göng á höfuðborgarsvæðinu eru þá ekki meðtalin.

Jarðgangagerð er kostnaðarsöm framkvæmd; hver kílómetri af veggöngum með öllum búnaði kostar um 2,5 milljarða, en dálítið breytilegt og háð aðstæðum. Stefna ráðamanna, samkvæmt

nýsamþykktri samgönguáætlun, er að að jafnaði verði unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma, enda mikilvægt að halda samfellu í gangagerð til að reynsla og þekking frá einu verki til annars nýtist. Þá má færa rök fyrir að samfella geti af sér lægri tilboð í ný gangaverkefni. Það er því áhyggjuefni nú að miklu minna verði af veggangavinnu á næstunni, sem þýðir að reynsla flyst síður á milli verka og jafnvel týnist. Fyrir liggur að gerð næstu vegganga, væntanlega Fjarðarheiðarganga, getur í fyrsta lagi hafist 2022 eða 2023 ef fjármagn fæst. Önnur veggöng, sem nefnd hafa verið, eru m.a. göng undir Reynisfjall og er undirbúningur þar hafinn en fjármögnun ekki frágengin.

Almennt getur verið erfitt að fá fjárveitingar úr ríkissjóði til að fjármagna veggöng að fullu af ýmsum ástæðum og ríkissjóður er vart aflögufær sem stendur. Rétt er því að skoða hvort leita megi annarra leiða til fjármögnunar. Í því sambandi má benda á leið Færeyinga við fjármögnun Austureyjar- og Sandeyjarganga, en Austureyjargöng voru nýlega opnuð fyrir umferð, sjá grein okkar í Morgunblaðinu 19. desember sl. Þar er uppleggið að landstjórnin stofnar félag, að fullu í sinni eigu, til að byggja og reka göngin.

Félagið innheimtir veggjöld til að greiða niður kostnað við gerð ganganna og standa undir kostnaði við rekstur þeirra. Landstjórnin veitir ríkisábyrgð á lánunum fyrir gangagerðinni, sem tryggir líklega lægri vexti en einkaaðilar fá. Þá er lagt upp með að halda áfram innheimtu veggjalda í umferðarmeiri göngum til að greiða niður kostnað við gerð og rekstur umferðarminni ganga, sem er athyglisverð nýlunda.

Það er líka hægt að líta til Noregs en þar eru mörg veggöng greidd niður að hluta með veggjöldum. Algengasta formið þar er að ákveðin fjárveiting kemur úr ríkissjóði en heimamenn stofna félag og taka lán fyrir hluta framkvæmdakostnaðar. Norska vegagerðin sér síðan um hönnun og framkvæmd verksins og tekur göngin í rekstur á sinn kostnað eftir opnun. Félag heimamanna setur upp gjaldtökubúnað og innheimtir veggjald til að greiða lánið en eftir að það er að fullu greitt er gjaldheimtu hætt. Félagið hefur ekkert með byggingu ganganna eða rekstur að gera.

Það er hægt að taka mið af báðum löndunum og setja upp hugmynd að fyrirkomulagi við fjármögnun vegganga sem gæti verið nothæf á Íslandi.

  1. Hluti byggingarkostnaðar nýrra ganga komi af vegaáætlun (framlag ríkisins).
  2. Stofnað er félag sem innheimti veggjald af núverandi og nýjum göngum og tekjur settar í sjóð sem fjármagni hluta byggingarkostnaðar við ný göng.
  3. Vegagerðin kosti síðan rekstur þeirra eins og annarra vega, en veggjöld notuð til að greiða niður stofnkostnað.
  4. Heimilt sé að taka veggjald í veggöngum þó að engin önnur leið sé fyrir hendi fyrir vegfarendur.

Oft er talað um einkafjármögnun og töku veggjalda í tengslum við gangagerð. Göng á landsbyggðinni eru svo fáfarin að veggjald í einstökum göngum skiptir litlu máli miðað við heildarkostnað við gerð flestra ganga. Ef hins vegar er innheimt hóflegt gjald í öllum núverandi göngum (strætógjald) duga árstekjur fyrir um 1 km af nýjum göngum.

Ofangreint er aðeins sett fram sem dæmi til umhugsunar og frekari umræðu. Höfundar eru ekki að leggja til eina ákveðna útfærslu.

Gísli er byggingarverkfræðingur og fv. deildarstjóri jarðgangadeildar Vegagerðarinnar; Matthías er jarðverkfræðingur á Mannviti og Björn jarðverkfræðingur á Geotek. Höfundar hafa komið að gerð flestra vegganga hér á landi síðastliðin 20 til 30 ár og Matthías og Björn eru m.a. tæknilegir ráðgjafar við gerð Austureyjar- og Sandeyjarganga í Færeyjum. ge@simnet.is, ml@mannvit.is, bah@geotek.is

 

 
TextiMynd