Saga Jarðgangafélags Íslands

Jarðgangafélagið var stofnað 18. mars 1974. Megintilgangur stofnunar sérstaks félags um jarðgangagerð var „söfnun gagna um jarðgangagerð á Íslandi og samstarf við erlenda aðila á þessu sviði“ eins og segir í fundargerð stofnfundar. Hvatinn að stofnun félagsins var sá að heyrst hafði að til stæði að stofna alþjóðlegt jarðgangafélag og hvatt til að stofnað væri í hverju meðlimalandi áhugafélag um jarðgangagerð, sem síðan mynduðu með sé alþjóðlegt samband.

Á stofnfundi voru fyrstu lög félagsins samþykkt, þar sem segir í 1. grein að hlutverk félagsins sé:

1) Þátttaka fyrir Íslands hönd í International Tunnelling Association (ITA).

2) Söfnun upplýsinga um jarðgöng hér á landi; jarðfræði, byggingarhraða, vinnslutækni og fleira.

3) Upplýsingamiðlun til þátttakenda frá alþjóðlegu samstarfi og innlendri reynslu.

Þá var sett í lög félagins að í stjórn skyldu sitja fjórir menn kosnir til þriggja ára í senn. Fyrsti formaður félagsins, kosinn á stofnfundi, var Haukur Tómasson hjá Orkustofnun, og meðstjórnendur Jón Birgir Jónsson (Vegagerðinni), Sigurður Thoroddsen (VST) og Ólafur Gíslason (Ístak).

Haukur Tómasson gegndi formennsku í félaginu frá stofnun 1974 til 1987. Næstur í formannsstólinn var Birgir Jónsson hjá Orkustofnun, sem gegndi stöðunni til 1994 eða þar til Hreinn Haraldsson hjá Vegagerðinni tók við formannstólnum og gegndi þeirri stöðu til 2013. Með Hreini í stjórn frá 1994 sátu Birgir Jónsson (Orkustofnun), Ólafur Jensson (Landsvirkjun) og Kristján Már Sigurjónsson (VST). Ólafur fór úr stjórn 1997 og við tók Björn A Harðarson. Sat sú stjórn óbreytt til 2013. Aðrir sem setið hafa í stjórn félagsins frá 1974 til 1994 eru m.a. Aðalsteinn Hallgrímsson (Hraunvirki). Þá hafa orðið breytingar á hlutverkum stjórnarmanna nokkrum sinnum á þessu tímabili. Ólafur Jensson kom inn í stjórn í stað nafna síns Gíslasonar 1982, Kristján Már sem varaformaður í stað Aðalsteins 1987 og Hreinn sem gjaldkeri í stað Jóns Birgis 1987.

Lög félagsins voru óbreytt til 1988 er ákveðið var á aðalfundi að festa í 1.gr. laga nafn félagins „Jarðgangafélag Íslands“ og „Icelandic Tunnelling Society“ á ensku. Ruglingur á nafngift félagins, sem ýmist var kallað Íslenska Jarðgangafélagið eða Jarðgangafélag Íslands, var ástæða þess að það þótti nauðsynlegt að festa heiti félagins í sessi.

Árið 2013 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum félagsins og lagt til að félagið myndi einnig halda utan um þátttöku og samstarf við jarðganganefnd norræna vegasambandsins (Nordisk Vegforum, NVF), en sérstök jarðganganefnd innan NVF var sett á laggirnar árið 2008. Tengiliðir Íslands innan jarðganganefndar voru frá 2008 Gísli Eiríksson frá Vegagerðinni, sem formaður, og Matthías Loftsson frá Mannvit, sem ritari.

Með sameiningu Jarðgangafélagsins og jarðganganefndar NVF varð Gísli Eiríksson hjá Vegagerðinni formaður sameiginlegs félags frá 2013 og með honum í stjórn Björn A Harðarson (Geotek), Jón Smári Úlfarsson (Landsvirkjun) og Matthías Loftsson (Mannvit verkfræðistofu).

Gísli og Björn hættu í stjórn 2019 og við stöðu formanns tók Matthías Loftsson. Meðstjórnendur frá 2019 eru Jón Smári Úlfarsson, Guðmundur Rafn Kristjánsson (Vegagerðin) og Guðmundur H. Gíslason (Ístak).

Í samræmi við hlutverk félagsins hefur Jarðagangafélagið frá stofnun staðið fyrir fjölda kynninga og fyrirlestra um ýmis mál tengd jarðgangagerð og fengið til þess bæði innlenda og erlenda fyrirlesara. Helstu afrek félagins eru ráðstefna um jarðgöng 1981, í samvinnu við Mannvirkjafræðifélag Íslands og Byggingar- og verkfræðideild HÍ og málstofa um jarðgöng 1991 í tengslum við fund framkvæmdarstjórnar ITA hér á landi. Þá var haldin málstofa hér á landi á vegum jarðganganefndar NVF árið 2011.

Starfsemin hefur verið æði misjöfn frá stofnun. Á fyrsta stjórnarfundi félagsins, 1. apríl 1974, var m.a. ákveðið að keypt yrði fundargerðarbók og færð í hana fundargerðir fyrir bæði stjórnarfundi og aðra fundi í félaginu. Þessi bók er enn í notkun og varðveitt af formanni.

Þrátt fyrir samþykkt á fyrsta stjórnarfundi um fundarritun og skráningar, vantar í fundargerðarbók skráningar um fundi og aðrar upplýsingar um starfsemi félagins yfir nokkur tímabil. Sum árin voru eflaust haldnir fundir og fyrirlestrar, sem ekki var skráð, en önnur ár datt starfsemin alveg niður. Sem dæmi er ekki að finna í fundargerðarbók upplýsingar um starfsemi félagsins 1975 til 1979 en, miðað við skráningar í fundargerðarbók, hefur starfsemin verið nokkuð góð á tímabilinu 1980 til 1999 þó upplýsingar vanti um nokkur ár, einkum seinni hluta þessa tímabils. Frá 2000 til 2007 er aðeins að finna upplýsingar um fundi og fræðsluerindi árin 2002 og 2007. Frá 2008 var starfsemi Jarðgangafélagsins aðallega innan vébanda jarðganganefndar NVF og var svo allt til ársins 2013 eða þar til ákveðið var á haustmánuðum 2013 að sameina jarðganganefnd NVF og Jarðgangafélagsið, undir merkjum JGFÍ. Með sameiningu efldist starfsemin á ný.

Frá 2013 hafa að jafnaði verið haldnir 2 til 3 árlegir stjórnarfundir auk aðalfundar hvert ár og fundargerðir færðar í fundargerðarbók. Á heimasíðu JGFÍ er að finna fundargerðir aðalfunda frá 2013 auk afrita af fyrirlestraglærum flestra fyrirlestra frá þeim tíma.


SagaJgfi