Sögulegt yfirlit og fyrri jarðgangaáætlanir

Fyrstu veggöngin voru grafin haustið 1948 í gegnum Arnardalshamar milli Ísafjarðar og Súðavíkur, 30 metra löng. Þau voru víkkuð árið 1995 og eru þannig í fullri notkun. Strákagöng við Siglufjörð voru næst, opnuð 1967, 800 m löng. Búnaður var endurbættur verulega um 1990 og aftur nýlega. Þau eru mjög þröng, breiddin 4,2 m, og eru tæknilega úrelt en mannvirkið stendur samt fyrir sínu. Hafin er umræða um önnur göng sem leysi þau af hólmi. Þriðju göngin voru undir Oddsskarð, 600 m löng, með sama þversniði og Strákagöng. Þau hafa nú verið leyst af hólmi með Norðfjarðargöngum sem voru opnuð haustið 2017.

Árið 1981 var ákveðið að grafa jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla og voru þau vígð 10 árum síðar. Mikið var rætt um jarðgöng á þessum árum og árið 1987 kom út „Skýrsla nefndar um Jarðgangaáætlun“ sem var fyrsta heildstæða áætlunin sem gerð var hér á landi. Þar var áhersla lögð á að skoða hvaða fjallvegir stæðu í vegi fyrir því að þéttbýlisstaðir gætu tengst vegakerfinu með fullnægjandi hætti nema með tilkomu jarðganga. Nokkuð margir staðir voru kannaðir en niðurstöðurnar voru að byggðarlög sem tengdust um eftirtalda fjallvegi skyldu hafa forgang:

1. Ólafsfjarðarmúli

2. Botnsheiði og Breiðadalsheiði

3. Fjarðarheiði og Oddsskarð

Múlagöng voru opnuð árið 1990, göng undir Breiðadals- og Botnsheiðar voru opnuð árið 1996 og Norðfjarðargöng sem leystu Oddskarð af hólmi voru opnuð 2017. Göng undir Fjarðarheiði eru ógrafin enn en komin á áætlun. Í þessari jarðgangaáætlun var sem sagt megin röksemdin við forgangsröðun framkvæmda sú að reyna að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu, og lögð áhersla á jarðgöng þar sem snjóþungir fjallvegir gerði vetrarsamgöngur erfiðar og byggðir einangruðust frá aðalvegum um lengri tíma vegna snjóþyngsla. Í skýrslunni er einnig fjallað um Hálfdán á Vestfjörðum og Hellisheiði eystri, en þar var talið að hægt væri að leggja nothæfa vegi, að minnsta kosti fyrst um sinn. Í viðauka skýrslunnar er fjallað um Hvalfjarðargöng, sem ýtti af stað undirbúningi fyrir það verkefni.

Alþingi ákvað 1999 að láta vinna nýja langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin skyldi vera tvíþætt. Annars vegar yfirlitsáætlun, þar sem tekin væru með þau jarðgangaverkefni, sem verið höfðu til umræðu og skoðunar árin á undan, að viðbættum þeim verkefnum, sem Vegagerðin teldi koma til álita, ef einhver væru. Verkefnin skyldu metin til kostnaðar og þeim gefnar „einkunnir“ fyrir þau atriði, sem upp voru talin í þingsályktuninni, svo og önnur þau atriði sem skipt gætu máli (t.d. umferðaröryggi). Þau atriði sem horfa skyldi til voru framkvæmdir sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Hins vegar skyldi velja úr þessu safni þau verkefni, sem brýnust töldust og raða þeim í forgangsröð. Við valið skyldi haft í huga að heildarkostnaður valinna verkefna færi ekki fram úr 10 – 12 milljörðum króna á verðlagi þess tíma.

Vegagerðinni var falið þetta verkefni og skýrsla með tillögum gefin út í janúar árið 2000. Þar var lagt til að þeim jarðgöngum sem verið höfðu til skoðunar yrði skipt í tvo flokka:

1. Fyrstu verkefni

2. Verkefni til síðari skoðunar

“Þær tillögur sem hér eru lagðar fram byggjast að nokkru leyti á nýjum áherslum. Áður hefur við forgangsröðun jarðgangaframkvæmda verið litið á vetrareinangrun sem veigamesta atriðið. Hér má segja að meiri áhersla sé lögð á göng sem geta stækkað og styrkt byggðakjarna, ekki síst með styttingu vegalengda. Meginástæður þessarar viðhorfsbreytingar eru tvær. Einn mikilvægra þátta til að sporna við stöðugri fólksfækkun á landsbyggðinni hlýtur að vera efling byggðakjarna sem eru það stórir, að þeir geta haldið uppi fjölbreyttu atvinnu-, mennta- og menningarlífi. Þá hefur komið í ljós, eins og fram kemur m.a. í könnunum sem kynntar eru í þessari skýrslu, að nýlegir, vel uppbyggðir fjallvegir geta í mörgum tilfellum tryggt góðar heilsárssamgöngur”.

Tillögur um fyrstu verkefni voru:

Fáskrúðsfjarðargöng (opnuð 2005)

Héðinsfjarðargöng (opnuð 2010)

Dýrafjarðargöng (opnuð 2020).

Megin röksemdir fyrir valinu eru taldar upp við hvert verkefni (efling viðkomandi byggða með betri vegtengingum, leysa flöskuhálsa varanlega, stækka atvinnu- og þjónustusvæði mikilvægra byggðakjarna, stytta vegalengdir milli þéttbýlisstaða).

Hins vegar var í skýrslunni listi yfir 21 verkefni til síðari skoðunar. Það voru göng sem verið höfðu til umræðu á opinberum vettvangi, með mis mikilli alvöru þó og mis fýsileg. Þessi verkefnalisti ásamt stuttri lýsingu á verkefnunum hefur síðan reynst mjög góð handbók um jarðgöng á landinu.

Göng um Almannaskarð (1,3 km) skutust inn í röðina og voru opnuð 2005. Að öðru leyti hefur jarðgangaáætlunum 1987 og 2000 verið fylgt sl. 30 ár, þegar litið er til þeirra verkefna sem beinar tillögur voru um að ráðast skyldi í fyrst, og með tilliti til þess að næstu göng eiga að koma undir Fjarðarheiði með byrjun 2022. Til viðbótar hafa komið göng sem ekki voru á forræði ríkisins, Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng.

Á mynd að neðan er teiknaður ferill yfir heildarlengd vegganga frá því gangagerð hófst og til ársins 2020. Samtals eru þetta 65,4 km, án Oddskarðs sem er aflagt og Húsavíkurhöfðaganga sem eru ekki fyrir almenna umferð, þá eru eftir 63,8 km. Ef hallinn á þessum ferli frá 1990 er skoðaður sést að frá því vinna hófst við Ólafsfjarðarmúla árið 1998 og til ársins 2020 þegar Dýrafjarðargöng opnast, hafa verið grafnir um 64 km á 32 árum eða mjög nálægt 2 km á ári að meðaltali.

Það er ljóst að flest eða öll þessi göng hafa gjörbreytt samgöngum til mikilla bóta á sínum svæðum. Enn er mjög mikill áhugi á jarðgangagerð víða og mörg verkefni nefnd til sögunnar. Gerð jarðganga mun halda áfram, en óljóst hversu mikið verður grafið á ári að meðaltali.