empty

Helstu upplýsingar

  • Verkkaupi: Vegagerðin
  • Staðsetning: Norðurland
  • Framkvæmdartími: 2006-2010
  • Lengd: 10.570 m
  • Vegskálar: 450 m
  • Snið: T8
  • Hönnun: Mannvit
  • Aðalverktaki: Metrostav/Háfell

Héðinsfjarðargöng

Héðinsfjarðargöng - 2. október 2010 (samantekt: Vegagerðin á Akureyri, október 2010)


Undirbúningur

Árið 1990 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga um könnun á gerð jarðganga og vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla. Fyrsti flutningsmaður var Sverrir Sveinsson frá Siglufirði en með honum voru þingmenn á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, þ.e. Halldór Blöndal, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson og Pálmi Jónsson.

Allsherjarnefnd Alþingis lagði til að efni tillögunnar yrði fellt inn í nefnd þingmanna úr öllum þingflokkum sem vann ásamt Vegagerðinni að gerð langtímaáætlunar í samgöngumálum. Virtist nefndinni að efni tillögunnar félli inn í verkefni þeirrar nefndar. Nefndarmenn voru sammála um að heppilegast væri að umræða um jarðgangagerð og könnun hennar færi fram í þeirri nefnd sem ynni að langtímaáætluninni.

Árið 1994 skipaði þáverandi vegamálastjóri, Helgi Hallgrímsson, samstarfshóp um endurbyggingu vegarins um Lágheiði. Í samstarfshópnum sátu fulltrúar allra aðliggjandi sveitarfélaga og Vegagerðarinnar. Hreinn Haraldsson hjá Vegagerðinni var formaður hópsins.

Fyrst og fremst átti hópurinn að horfa til endurbyggingar vegar um Lágheiði þannig að heils árs sambandi mætti koma á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en hópurinn kannaði einnig hugsanlega jarðgangagerð.

Sumarið 1996 hófst undirbúningur að rannsóknum á jarðfræðilegum aðstæðum til jarðgangagerðar. Einnig fóru fram umferðarkannanir til að gera raunhæfa umferðarspá. Samráðshópurinn lauk störfum í nóvember 1999 með gerð skýrslu: „Vegtengingar milli byggðarlaga á norðanverðum Tröllaskaga“. Til skoðunar voru þrír kostir; Héðinsfjarðarleið, Fljótaleið og endurbyggður vegur um Lágheiði.

Í samanburði kosta var litið til ýmissa þátta s.s. kostnaðar, umferðar, vegalengda, byggðaþróunar, snjóþyngsla og jarðfræði. Niðurstaða samráðshópsins var að göng um Héðinsfjörð væri besti kosturinn.

Meginröksemd fyrir tillögunni var sú að með þessari leið tengist Siglufjörður byggðum við Eyjafjörð á þann hátt að Eyjafjarðarsvæðið í heild verður öflugra mótvægi við höfuðborgarsvæðið og byggð á miðju Norðurlandi styrkist verulega.  Ávinningur með hringtengingu með ströndinni um Tröllaskaga er einnig talinn verulegur fyrir sveitarfélög í Skagafirði, Siglufirði og Eyjafirði, einkum í ferðaþjónustu.

Vorið 2000 samþykkti Alþingi tillögu um gerð jarðganga á norðanverðum Tröllaskaga sem myndu tengja Siglufjörð og norðaustanverðan Skagafjörð betur við Olafsfjörð og Eyjafjarðarsvæðið.

Mat á umhverfisáhrifum

I kjölfar þessa vann Vegagerðin mat á umhverfisáhrifum fyrir jarðgangagerð á Tröllaskaga. Vegagerðin lagði til Héðinsfjarðarleið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Jafnframt voru kannaðar aðrar leiðir í matsvinnunni og var megin samanburðarkostur í matsskýrslunni svokölluð Fljótaleið.

Í verkefnisstjórn fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna vegtengingar á norðanverðum Tröllaskaga sátu Guðmundur Heiðreksson og Helga Aðalgeirsdóttir hjá Vegagerðinni, Stefán Gunnar Thors hjá VSÓ Ráðgjöf og Anton Brynjarsson hjá Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks (AVH).

Matsáætlun

Matsáætlun vegna framkvæmdarinnar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var samþykkt í janúar 2001. Ýmsir sérfræðingar voru fengnir til að gera rannsóknir. Fornleifastofnun Íslands gerði fornleifakönnun, Náttúrufræðistofnun Íslands gerði rannsókn á jarðfræði, skriðuföllum, gróðri og fuglum, Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði rannsókn á samfélagslegum áhrifum framkvæmdarinnar, Veiðimálastofnun á Hólum gerði athugun á fiskum í vötnum og ám, Verkfræðistofa Siglufjarðar gerði rannsókn á snjóalögum og snjóflóðahættu við mögulega gangamunna og VSÓ Ráðgjöf tók saman upplýsingar um útivist og ferðamennsku á svæðinu.

Eitt mikilvægasta markmið matsvinnunnar var að meta hvor fyrirliggjandi valkosta félli betur að þeim markmiðum sem Alþingi hafði sett sér í byggðamálum og samgöngumálum. Jafnframt því að kanna hvort unnt væri að ná þessum markmiðum án þess að valda umtalsverðum og óásættanlegum umhverfisáhrifum.

Matsskýrsla

Matsskýrsla sem byggir á matsáætlun og niðurstöðum fjölmargra sérfræðinga á ýmsum sviðum var lögð fram í júlí 2001. Meðal annars voru metin möguleg áhrif framkvæmda á gróðurfar, fuglalíf, fiska, samfélag og byggð, landslag, og ferðamennsku. Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum var að Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið myndu ekki valda umtalsverðum neikvæðum áhrifum á umhverfið. Þessar framkvæmdir myndu hins vegar leiða til umtalsverðra jákvæðra áhrifa á byggð og þá sérstaklega á norðanverðum Tröllaskaga. Þegar þessar tvær leiðir voru bornar saman með tilliti til arðsemi og umhverfisáhrifa, á náttúru og samfélag, benti flest til þess að Héðinsfjarðarleið væri betri kostur. Út frá vegtæknilegu sjónarmiði og arðsemi lagði Vegagerðin til Héðinsfjarðarleið sem megin kost. Niðurstaða matsins var einnig sú að Héðinsfjarðarleið hafi jákvæðari áhrif á byggð og samfélag án þess að valda verulegum neikvæðum áhrifum á náttúru svæðisins.

Tvennt stóð upp úr:

  1. Veruleg jákvæð áhrif sem bættar samgöngur með Héðinsfjarðarleið kunna að hafa á samfélagið á norðanverðum Tröllaskaga, þá fyrst og fremst Siglufjörð og Olafsfjörð. Stytting milli þessara staða með tilkomu Héðinsfjarðarleiðar er 219 km á veturna og 47 km á sumrin.
  2. Opnun Héðinsfjarðar með tilkomu jarðganga og vegar um fjörðinn. Þegar Héðinsfjörður verður aðgengilegri munu einkenni hans sem eyðifjörður rýma og upplifun þeirra sem heimsækja hann kann að breytast eða verða öðruvísi en ef hann væri enn lokaður. Þetta eru e.t.v. helstu neikvæðu umhverfisáhrif framkvæmda.

2001 Úrskurður Skipulagsstofnunar

Úrskurður Skipulagsstofnunar var lagður fram í október 2001. Niðurstaðan var að fallist væri á fyrirhugaða gerð jarðganga og vegagerð á norðanverðum Tröllaskaga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar samkvæmt Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið, eins og henni væri lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila.

2002 Úrskurður Umhverfisráðherra

Kærufrestur til umhverfisráðherra var til 23. nóvember 2001. Tvær kærur bárust. Umhverfisráðherra úrskurðaði um málið í maí 2002, þar sem úrskurður Skipulagsstofnunar var staðfestur að viðbættu skilyrði um endurheimt votlendis.

Fyrra útboð Héðinsfjarðarganga

í maí árið 2002 auglýsti Vegagerðin eftir þátttakendum í forvali vegna þrennra áætlaðra vegganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar annars vegar og Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hins vegar. Forvalið var auglýst bæði innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu. í forvalsauglýsingu var tekið fram að með forvalinu bindi Vegagerðin sig ekki til að bjóða verkin út og ef af útboði yrði væri áskilinn réttur til að bjóða verkið út í tveimur verksamningum á mismunandi tíma.

Útboðsgögn fyrir jarðgangagerð um Héðinsfjörð voru send sömu verktakahópum og valdir höfðu verið í forvali Fáskrúðsfjarðarganga og Héðinsfjarðarganga. Tilboðin voru opnuð 30. Maí 2003.

  1. júlí 2003 ákvað samgönguráðherra að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að hafna öllum tilboðum í verkið.

Í frétt frá forsætisráðuneytinu, dagsettri 11. júlí 2003, kom fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið að Héðinsfjarðargöng yrðu boðin út haustið 2005 og að verkið yrði hafið haustið 2006. Í sömu frétt var kveðið á um að nokkrum smærri verkum sem tengdust gangaframkvæmdunum yrði lokið á næstu misserum. í samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar bauð Vegagerðin út byggingu brúa á Ólafsfjarðarós í Ólafsfirði á árinu 2003 og Fjarðará í Siglufirði á árinu 2004.

Síðara útboð Héðinsfjarðarganga

Í október 2005 auglýsti Vegagerðin eftir þátttakendum í forvali vegna jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.  Óskum um þátttöku átti að skila inn eigi síðar en 13. desember 2005.

Útboðsgögn voru send þeim aðilum sem valdir voru í forvalinu síðari hluta janúar 2006 og tilboð opnuð 21. mars það ár. Í útboðsgögnum var gert ráð fyrir að verktaki gæti hafið framkvæmdir í júlí 2006 og að verkinu skyldi lokið eigi síðar en 10. desember 2009.

Verkframkvæmdin var boðin út í janúar 2006 og var það stærsta útboð í sögu Vegagerðarinnar. Fimm tilboð bárust og var samið við lægstbjóðanda, Metrostav a.s. og Háfell ehf.  Verksamningur var undirritaður þann 20. maí 2006 og framkvæmdir hófust í júní 2006.

Verkframkvæmd

Héðinsfjarðargöng eru tvenn jarðgöng, annars vegar milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar sem eru tæpir 4 km að lengd og hins vegar milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar sem eru rúmir 7 km að lengd.  Samanlögð lengd ganga í bergi er 10.570 m og við alla gangamunna eru steyptir vegskálar sem eru samtals um 450 m að lengd. Heildarlengd ganga með vegskálum er því 11.020 m.  Göngin eru tvíbreið og neyðarútskot eru með 500 m millibili. Að auki eru þrjú stór snúningsútskot fyrir löng ökutæki. Verkið nær einnig til aðkomuvega utan ganga ásamt ýmsum tengivegum, samtals um 4 km að lengd. Bygging brúar í Héðinsfirði var einnig hluti af verkframkvæmdinni.

Göngin voru grafin úr báðum áttum og hófust gangasprengingar Siglufjarðarmegin síðla í september 2006 og í byrjun nóvember sama ár frá Ólafsfirði. Gröftur frá Siglufirði gekk almennt vel og sprengt var út til Héðinsfjarðar 21. mars 2008.  Í byrjun maí 2008 var síðan byrjað á gangagreftri í austanverðum Héðinsfirði og voru tæplega 2 km grafnir frá Héðinsfirði og í átt til Ólafsfjarðar en þar var greftri hætt í lok janúar 2009.  Frá Ólafsfirði gekk gröftur misvel og á köflum afar hægt vegna mikils vatnsinnrennslis og tímafrekra bergþéttinga. Sprengt var í gegn til Héðinsfjarðar þann 9. apríl 2009 og tók því gangagröfturinn alls um tvö og hálft ár.

Eftir gangagröft var unnið við endanlegar styrkingar á bergi og síðan lagningu fráveitukerfis í göngum sem er umfangsmikið en heildarlengd fráveitulagna í gangagólfi er um 32 km. Vinna við vatnsklæðingar var einnig mikil en allt vatn í veggjum og lofti ganganna er skermað af með plastklæðingum og leitt ofan í fráveitukerfi í gólfi. Klæðingarnar eru síðan brunavarðar með sprautusteypu. Heildarflatarmál vatnsklæðinga í göngum er um 77.000 m2. Unnið var við vegagerð og aðra jarðvinnu utan ganga öll sumur verktímans. Samfelld vinna var við uppsteypu vegskála frá júlí 2008 þegar byrjað var á skála í Siglufirði og fram í febrúar 2010 er lokið var við skálann í Ólafsfirði.  Malbikun aðalvegar Siglufjarðar-megin fór fram í júlí og vegur í göngum malbikaður í september á þessu ári (2010).

Vinna rafverktaka við rafbúnað í göngum hófst í mars 2010 og var ekki að fullu lokið við opnun ganganna. Öryggis- og fjarskiptabúnaður ganganna er umfangsmikill og þar má nefna t.d. neyðarsíma og handslökkvitæki með 250 m millibili, afar öflugt loftræsikerfi með 26 blásurum, hraðavara, hraðamyndavélar, eftirlitsmyndavélar við gangamunna, mengunarnema, lokunarbómur og hæðarslár. Loftljós eru í endilöngum göngum með 18 m millibili og við alla munna er meiri lýsing sem stýrist af birtu utan ganga. Ennfremur er aukin lýsing í öllum neyðarútskotum og öll skilti í göngum eru upplýst. Farsímasamband er í göngunum og einnig Tetra fjarskiptakerfi og ljósleiðari.  Þrjár spennistöðvar eru í göngunum og sérstök stjórnhús utan á vegskálum í Siglufirði og Ólafsfirði.  33 kV háspennustrengur var lagður um göngin fyrir dreifikerfi Rarik.  Heildarlengd allra raflagna í göngunum er um 185 km og ídráttarrör eru um 71 km að lengd.  Öflugt stýrikerfi stjórnar öryggisbúnaði og fylgst verður með umferð og ástandi í göngunum af skjám í vaktstöðvum Vegagerðarinnar.  Sérstakir neyðarstjórnskápar eru einnig utan við hvern munna þar sem viðbragðsaðilar geta m.a. stjórnað lokunarbómum og loftræsingu í göngum. Veðurstöð verður í Héðinsfirði.

Vegalengd milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um göngin er einungis um 15 km og stytta göngin vegalengdina milli þessara þéttbýliskjarna Fjallabyggðar um 47 km miðað við sumarleið um Lágheiði en um 219 km miðað við leið um Öxnadalsheiði.

Heildarkostnaður við framkvæmdina alla er um 12 milljarðar króna.

Helstu aðilar verksins

Vegagerðin sem er verkkaupi hafði umsjón með undirbúningi og hönnun ganganna. Sérstakur stýrihópur verkkaupa var skipaður fyrir þetta verk og hann skipa formaður, Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri Norðaustursvæðis, Rögnvaldur Gunnarsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar og Gunnar H. Guðmundsson, umdæmisstjóri á Sauðárkróki.

Fulltrúi verkkaupa við verkið var Sigurður Oddsson, framkvæmdadeild Norðaustursvæðis, frá byrjun fram til 2008, en eftir það Jón Magnússon, framkvæmdadeild Norðvestursvæðis. Guðmundur Heiðreksson, yfirmaður áætlana og hönnunarkaupa Norðaustursvæðis og Gísli Eiríksson yfirmaður jarðgangadeildar fóru með umsjón hönnunar en hönnuðir voru

Mannvit Reykjavik og Reyðarfirði, hönnun ganga

Vegagerðin, hönnun brúa í Siglufirði og Héðinsfirði

Verkfræðistofa Norðurlands Akureyri, hönnun vega og gerð mælinets

Verkís Akureyri, hönnun vegskála og brúar á Olafsfjarðarós

Raftákn Akureyri, rafhönnun

Teikn á lofti Akureyri, landmótun og hönnun áningarstaða

Verfræðistofa Siglufjarðar, hönnun snjóflóðavarnargarðs

Jarðfræðistofan Reykjavik annaðist jarðfræðirannsóknir

GeoTek ehf. annaðist umsjón framkvæmda og eftirlit. Umsjónarmaður var Björn A. Harðarson og aðstoðarmaður hans og staðgengill var Oddur Sigurðsson.

Verktaki var tékkneska fyrirtækið Metrostav a.s. og Háfell ehf. Verkefnisstjóri Háfells var fyrst Magnús Jónsson, síðan Guðmundur Björnsson og loks Valgeir Bergmann. Verkefnisstjórar gangavinnu að hálfu Metrostav voru David Cyron og Ermin Stehlik.

Helstu undirverktakar:  BM Vallá, Rafmenn , Hlaðbær Colas, Vatnsklæðningar, Bás.