Helstu upplýsingar
- Verkkaupi: Vegagerðin
- Staðsetning: Austurland
- Framkvæmdartími: 1972-1977
- Lengd: 626 m
- Snið: Einbreið
- Hönnun: Vegagerðin
- Aðalverktaki: Gunnar og Kjartan
Oddskarðsgöng
Oddskarðsgöng voru einbreið jarðgöng á Austurlandi sem gengu á milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Göngin voru opnuð 1978 og voru í notkun þar til Norðfjarðargöng komu í stað þeirra árið 2017. Göngin eru nú lokuð.
Neskaupstaður komst fyrst í vegasamband við aðrar byggðir árið 1949 og lá leiðin um Oddskarð. Það er einn hæsti fjallvegur á landinu og hann getur verið ófær vegna snjóþyngdar. Því var hafist handa við Oddskarðsgöng árið 1974 og þau tekin í notkun 1978. Göngin eru 626 metra löng og í 632 metra hæð yfir sjávarmáli, Oddskarðsgöng gerðu leiðina mun léttari yfirferðar en þar sem göngin voru í talsverðri hæð gat verið þungt að komast að þeim.
„Sprenging ganganna hófst Eskifjarðarmegin og er lengd þeirra nú orðin um eitt hundrað metrar. Hefur verkið sóst seinna en ætlað var, þar sem bergið er mikið sprungið og sums staðar stórar sprungur, svo það þarf að setja upp styrktarbita. Borholur þær sem nú eru gerðar eru 60 talsins fyrir hverja sprengingu. Hver hola er 2,4 metrar á dýpt. Í holurnar vill hrynja grjót sem tefur fyrir því að koma dýnamítinu fyrir og þess vegna þarf að bora fleiri holur hverju sinni,“ sagði Jóhannes Stefánsson, fréttaritari Ríkisútvarpsins í Neskaupstað í október 1972. Þá var verkið svo til nýhafið og við sjálfar sprengingarnar unnu 14 menn á tveimur 10 klukkustunda vöktum. Norðfjarðarmegin hafði aðeins verið sprengt einu sinni en þar fóru fram miklir jarðvegsflutningar vegna vegagerðar. „Verið er að kanna nógu hátt bert fyrir gangaopið og klettar sprengdir niður. Var fyrsta sprengingin gerð í fyrradag og tókst hún vel.“ Það var fyrirtækið Gunnar og Kjartan á Egilsstöðum sem bauð lægst í framkvæmdina og réð Ístak sem undirverktaka. Grafa þurfti 431 metra og tók verkið rúm fimm ár en ekki tvö eins og áætlað var. Göngin voru tekin í notkun í desember 1977 og voru vígð um vorið. Eftir að ný Norðfjarðargöng voru tekin í notkun í vetur var Oddskarðsgöngum lokað en vegskálinn Eskifjarðarmegin nýtist skíðasvæðinu í Oddskarði sem tónleikasvið.