Helstu upplýsingar
- Í vinnslu
Vaðlaheiðargöng
Formlegur verkkaupi verksins er Vaðlaheiðargöng hf. Hlutafélag í eigu Vegagerðarinnar, sveitarfélaga á norðurlandi og nokkurra fyrirtækja þar. Vegagerðin hefur séð um undirbúning, hönnun og útboð þessa verks bæði aðalverktakaverkið sjálft og eftirlit með því, raunar eru nokkur minni útboð eftir. Vegagerðin fylgist einnig með gerð ganganna og mun kom að þeim útboðum sem eru eftir.
Vaðlaheiðargöng eru um 7,17 km löng í bergi og heildarlengd vegskála er 320 m, samtals 7,5 km. Þversnið er samkvæmt norskum reglum og nefnist T9,5, breidd þess er um 9,5 m í veghæð, þverskurðarflatarmál 66,7m2.
Gangamunni að vestan verður í landi Halllands á Svalbarðsströnd um 50 metrum til hliðar við núverandi Hringveg, rétt norðan Halllandsness. Munninn þar er í ríflega 60 m hæð yfir sjó og er aðkoma úr suðvestri. Göngin eru að mestu einhalla frá Eyjafirði upp til Fnjóskadals með 1,5% halla, aðeins um 500 m halla niður til Fnjóskadals.
Heildarlengd vegskála er um 320 m, 84 m Eyjafjarðarmegin og 224 m Fnjóskadalsmegin. Í göngunum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 við hlið vegskála. Göngin eru malbikuð með steyptum upphækkuðum öxlum.
Rafmagnsbúnaður og öryggisbúnaður er fjölþættur. Mest af búnaðinum er í 6 tæknirýmum meðal annars 6 spennistöðvar. Þar sem eru útskot eru neyðarsímar í símaklefum en á milli útskota eru þeir í skápum á veggjum. Símaskáparnir eru einu skáparnir sem festir eru á veggi ganga, allir aðrir rafbúnaðarskápar eru í tæknirýmum. Loftræsiblásarar, 1 m í þvermál, eru 20 og eru tveir og tveir saman á 4 svæðum við tæknirýmin inni í göngum.
Verkið nær ennfremur til lagningar um 1,2 km langs vegar í Eyjafirði ásamt hringtorgi og um 2,9 km vegkafla í Fnjóskadal, eða samtals um 4,1 km. Í lagningu vega er einnig innifalin gerð vegtenginga á báðum stöðum. Fyllt verður yfir mest allt athafnasvæði verktaka Eyjafjarðarmegin og landið hækkað. Loks á að flytja afgangs efni í flughlað Akureyrarflugvallar. Eftir þetta er ekki gert ráð fyrir afgangsefni þeim megin en einhver afgangur verður Fnjóskadalsmegin.
Tilboð voru opnuð í verkið 11. Október 2011 og var þá gert ráð fyrir verklokum í lok júlí 2015. Samningar drógust mjög vegna þess að bíða þurfti eftir ákvörðunum þings og ráðuneytis, verkið hófst fyrst vorið 2013.
Ýtarlegar upplýsingar um mannvirkið og verkið og gang þess má finna á vef Vaðlaheiðarganga hf. sjá krækju hér að ofan.
Jarðfræðiskýrslur:
Skýrsla um rannsóknarboranir haustið 2010 og samantekin niðurstaða jarðfræðirannsókna
Rannsóknir á eiginleikum setbergs í Vaðlaheiði - niðurstöður 2011
Jarðfræði 2011 - teikningar
Kjarnaholur - borholulýsingar
Kjarnaholur - myndir
Veggöng milli Svalbarðsstrandar og Fnjóskadals - Jarðfræðiskýrsla 2007
Teikningasafn 2007