Virkjanagöng á Íslandi:

Írafossvirkjun (1953) : Virkjun í Sogi. Fallhæð er um 38 m fall frá Úlfljótsvatni að Ljósafossstöð. Tvær vélasamstæður 15,5 MW hvor. Frá Inntaksmannvirki fer vatn um brött fallgöng að stöðvarhúsi, sem er neðanjarðar. Frá því liggja hallalítil frárennslisgöng undir árfarveginn, sem liggur í sveig neðan við stífluna, og opnast þau á vesturbakka árinnar neðan við Kistufoss. Samtals 0,9 km af jarðgöngum, aðkomugöng, fallgöng, stöðvarhellir og frárennslisgöng (650 m). Þvermál ganga 16-64m2, stöðvarhellir er um 280m2. Berggerð er basalt, jökulberg og túff.

Grímsárvirkjun (1958) : Virkjun í Grímsá í Skriðdal á Fljótsdalshéraði. Fallhæð er um 29 m og vatni veitt um eina um 2,8 MW vél. Framkvæmdir hófust 1955 og virkjun tekin í gagnið 1958. Samtals um 140 m af jarðgöngum, aðrennslisgöng (fallgöng), stöðvarhellir og frárennslisgöng (30m). Þvermál ganga er 6 til 8 m 2, stöðvarhellir er 250m2. Berggerð er ummyndað basalt og berggangar.

Steingrímsstöð (1959) : Virkjun í Sogi, sem virkjar 20,5 m fallhæð milli Þingvallarvatns og Úlfljótsvatns. Vatni er veitt í gegnum aðrennslisgöng að tveimur 13,5 MW vélarsamstæðum. Framkvæmdir hófust 1956 og virkjun tekin í gagnið 1959. Aðrennslisgöngin eru rúmir 300 m og flatarmál 64 m2. Berggerð er breksía, bögglaberg og basalt.

Búrfellsvirkjun I (1969) : Virkjun í Þjórsá við Búrfell með 6 x 45 MW vélarsamstæðum, samtals 270 MW. Heildarfallhæð er 115 m. Framkvæmdir hófust 1965 og virkjun tekin í gagnið 1969. Jarðgöng eru samtals um 1,8 km. Frá miðlunarlóni, Bjarnalóni, er vatni fyrst veitt í gegnum aðrennslisgöng, sem eru um 1,1 km að lengd og um 90m2 í þvermáli, síðan greinast göngin í tvenn um 100 m löng lárétt aðrennslisgöng, um 36 m2 í þvermáli í gegnum jöfnunarþró. Þaðan liggja síðan tvenn um 100 m lóðrétt fallgöng og tvenn um 190 m lárétt þrýstivatnsgöng, hvort tveggja um 28m2 að þvermáli. Að auki eru um 150 m löng aðgöng að aðrennslisgöngum (vinnugöng).

Laxárvirkjun III (1973) : Virkjun í Láxá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Frá stíflu er vatnið leitt í jarðgöngum að stöðvarhúsi um 60 m inni í bergi, skammt frá stöðvarhúsi Laxár I og þaðan um frárennslisgöng út í Laxá. Í stöðinni er ein 13,5 MW vélasamstæða. Fallhæð er 39 m. Framkvæmdir hófust 1970 og virkjunin var tekin í notkun árið 1973. Samtals eru jarðgöng rúmlega 1,1 km. Aðrennslisgöng eru um 550 m og 50 m2 í þvermáli, þrýstivatnsgöng um 120 m (30 m2) og frárennslisgöng um 180 m (60m2). Önnur göng eru inntaksgöng, framhjárennslisgöng, stöðvargöng og hjálpargöng samtals um 280 m. Þá er stöðvarhús og lokuhús neðanjarðar. Stöðvarhellir er 32m x 11m x 30m og lokuhellir 22m x 6m x10m (l x b x h). Berggerð er jökulberg, basalt, kargi og túff.

Blönduvirkjun (1991) : Virkjun í Blöndudal þar sem Blanda er stífluð við Reftjarnarbungu, hvar Blöndulón varð til, og veitt í gegnum vötn, ár og læki á Auðkúluheiði að inntakslóni og inntaki ofan Eiðsstaða í Blöndudal. Framkvæmdir hófust 1984 og virkjun tekin í notkun 1991 (göng voru grafin 1984 til 1988). Frá inntaki er vatni veitt um fallpípu og fallgöng að stöðvarhúsi, sem er neðanjarðar, og um frárennslisgöng aftur út í farveg Blöndu um 25 km neðan við Blöndustíflu. Fallhæð er um 287 m og aflvélar eru 3 x 50 MW, samtals 150 MW. Jarðgöng eru samtals um 3,3 km af göngum. Aðkomugöng eru um 800 m (25m2), sveiflugöng 230 m (22-37m2), frárennslisgöng 1200 m (36 m2) og greiningar um 70 m (9-22m2), Stöðvarhellir er 66 m x 12,5 m x 30 m (l x b x h). Þá eru tvenn dragboruð göng, fallgöng 230 m og kapal- og lyftugöng 220 m, hvort tveggja um 3,7 m í þvermáli. Berggerð eru basalt, kargaberg og setbergslög.

Sultartangavirkjun (2000) : Virkjun í Þjórsár hvar virkjað er um 45 m fall í ánni milli Búðarhálsvirkjunar og Búrfellsvirkjunar. Þjórsá er stífluð við Sultartanga, hvar Sultartangalón verður til, og ánni veitt í gegnum Sandafell í aðrennslisgöngum. Uppsett afl er 125 MW í tveimur 62,5 MW aflvélum. Framkvæmdir hófust árið 1997 og virkjun tekin í notkun árið 2000. Aðrennslisgöngin eru um 3,4 km að lengd og 150 m2 að þverskurðarflatarmáli, egglaga mest 15 m há og 12 m breið. Auk aðrennslisganga eru um 220 m löng aðgöng inn í sveifluþró og um 180 m löng kapalgöng milli Stöðvarhúss og rofahúss. Samtals því um 3,8 km af göngum.

Kárahnjúkavirkjun (2007) : Jökulsá á Brú er stífluð í Hafrahvammagljúfri við Kárahnjúka og ánni veitt í göngum að Fljótsdalsstöð, sem staðsett er í neðanjarðarhelli í Valþjófsstaðafjalli rétt innan við bæinn Valþjófsstað í Fljótsdal. Fljótsdalsstöð er langstærsta aflstöð landsins með 6 x 115 MW aflvélum, samtals 690 MW. Verg fallhæð er um 599 m. Vatn er fyrst veitt um heilboruð (TBM) aðrennslisgöng frá miðlunarlóni við Kárahnjúka að neðanjarðar lokuhelli um 420 m ofan við stöðvarhellinn. Að auki er vatni frá Hraunaveitu veitt í tvennum göngum að Ufsarlóni sem varð til með stíflu í farvegi Jökulsár í Fljótsdal norðan við Eyjabakkafoss. Þaðan er þessu vatni veitt í aðrennslisgöngin frá Kárahnjúkum u.þ.b. á miðri leið milli Kárahnjúka og Fljótsdals. Framkvæmdir hófust árið 2003 og virkjun var komin í fullan rekstur árið 2007.

Jarðgöng eru samtals um 72 km, sem skiptast þannig. Heilboruðu göngin (TBM) eru samtals um 47 km, sem skiptast í 6,9 km aðgöng og 39,7 km aðrennslisgöng. Þvermál heilboruðu ganganna er 7,2 m til 7,6 m. Boruð og sprengd veitugöng eru 13,3 km löng aðrennslisgöng frá Ufsarlóni að heilboruðum göngum, þvermál 6,5 m, og veitugöng Hraunaveitu eru samtals 3,7 km, 4,5 m í þvermáli. Við Kárahnjúkastíflu eru tvenn hjáveitugöng og aðkomugöng, samtals um 2,4 km, og um 0,5 km löng bergþéttingargöng við Kárahnjúkastíflu. Sveiflugöng á veituleiðinni eru um 1,7 km. Í Fljótsdal eru um 1040 m löng aðkomugöng (45 m2), um 960 m strengjagöng (14 m2) og um 1460 m frárennslisgöng (69 m2). Stöðvarhellir í Fljótsdal er 120 x 14 x 35 m og spennahellir 103 x 13,5 x 15 m (l x b x h). Frá lokuhelli ofan við stöðvarhelli eru tvenn dragboruð fallgöng (Raise drilled), sem eru um 4,04 m í þvermáli, samtals um 840 m (2 x 420 m).

Búðarhálsvirkjun (2014) : Virkjun sem virkjar fall milli Hauneyjafossvirkjunar og Sultartangavirkjunar. Stífla er við ármót Köldukvíslar og Tungnaár og vatni veitt um aðrennslisgöng í gegnum Búðarháls að stöðvarhúsi við Sultartangalón. Uppsett afl virkjunar er 95 MW (2 x 47,5 MW) og verg fallhæð um 40 m. Framkvæmdir hófust haustið 2010 og virkjunin tekin í notkun snemma árs 2014. Jarðgöng eru samtals tæpir 4,1 km. Aðrennslisgöng eru um 3960 m löng, með egglaga form, sem er um 14,7 m á hæð og mest 11,3 m breið í miðju (botnbreidd 9,3 m), þverskurðarflatarmál um 140 m2. Þá eru um 96 m löng aðkomugöng að jöfnunarþró, 6 x 6 m (hxb). Berggerð er basalt, setberg og líparít. Berg var bæði ferskt og mikið ummyndað.

Búrfellsvirkjun II (2018) : Virkjunin er staðsett austan við Búrfellsvirkjun I og nýtir sama miðlunarlón og virkjun I. Stöðvarhús er staðsett neðanjarðar með einni 100 MW vél. Heildarfallhæð er um 110 m. Framkvæmdir hófust 2016 og virkjun var tekin í notkun sumarið 2018. Jarðgöng eru samtals um 1,2 km. Frá aðrennslisskurði fellur vatn lóðrétt um rúmlega 100 m um stálfóðruð fallgöng með greiningu inn í stöðvarhelli sem er 65 x 15,4 x 33 m (l x b x h). Frárennslisgöng eru um 450 m, sporöskjulaga 10,7 m há og 8 m breið (72 m2) og aðkomugöng eru 270 m (47m2). Frá stöðvarhelli eru lóðrétt stiga og strengjagöng, sem eru um 110 m löng og 4,5 m í þvermáli. Fallgöng og strengjagöng eru dragboruð (raise drilled).

An error has occurred. This application may no longer respond until reloaded. Reload 🗙